Fer Frederik Schram gæti farið frá Val strax eftir 17. júlí.
Fer Frederik Schram gæti farið frá Val strax eftir 17. júlí. — Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Frederik Schram, sem hefur varið mark Valsmanna undanfarin tvö ár, eða frá miðju sumri 2022, er á förum frá félaginu og í hans stað kemur Ögmundur Kristinsson sem hefur leikið í Grikklandi undanfarin sex ár.

Frederik er samningsbundinn Val út þetta tímabil en Valsmenn skýrðu frá því í gær að samkomulag hefði ekki náðst um nýjan samning. Hann getur því farið frá félaginu áður en þessu tímabili lýkur. Frederik kom til Vals frá Lyngby í Danmörku. Hann hefur varið mark Vals í 49 leikjum í efstu deild og leikið 7 landsleiki fyrir Ísland.

Ögmundur, sem er 35 ára gamall og hefur leikið 19 A-landsleiki, fór frá Fram til Randers í Danmörku sumarið 2014 og lék síðan með Hammarby í Svíþjóð og Excelsior í Hollandi. Hann fór til Larissa í Grikklandi og var þar í tvö ár, síðan með stórliði Olympiacos í þrjú ár og í vetur með Kifisia, sem var nýliði í grísku úrvalsdeildinni.