Gabriel Attal
Gabriel Attal

Gabriel Attal forsætisráðherra Frakklands baðst í gær lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína. Emmanuel Macron Frakklandsforseti fól Attal að mynda starfsstjórn, en stjórnarkreppa hefur ríkt í landinu frá seinni umferð þingkosninganna fyrr í mánuðinum.

Sagði Macron á ríkisráðsfundi í gær samkvæmt heimildarmönnum AFP að hann vildi að starfsstjórnin starfaði í nokkrar vikur, og er talið líklegt að hún eigi að starfa hið minnsta fram yfir Ólympíuleikana í París, sem hefjast í lok næstu viku.

Sá tími á að gefa flokkunum kleift að ræða betur saman til þess að mynda starfhæfa ríkisstjórn eftir að seinni umferð kosninganna leiddi til þess að engin stærstu fylkinganna þriggja fékk hreinan meirihluta.