Ursula von der Leyen
Ursula von der Leyen

Ursula von der Leyen var í gær endurkjörin á Evrópuþinginu sem forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til næstu fimm ára. Hlaut von der Leyen 401 atkvæði af þeim 720 sem voru í boði, en 284 greiddu atkvæði gegn henni í leynilegri atkvæðagreiðslu á þinginu.

Von der Leyen hét því fyrir atkvæðagreiðsluna að hún myndi reyna að leysa úr húsnæðisvanda í aðildarríkjum ESB, styrkja landamæragæsluna Frontex og styrkja varnir ESB gegn falsfréttum og ranghermi. Þá vill hún auka fjárfestingu í ýmsum iðnaði, m.a. varnarmálum, á sama tíma og staðið yrði við loftslagsmarkmið sambandsins.

Þá sagði hún að nú væri þörf á „sterkri Evrópu“ til að bregðast við þeim erfiðu tímum sem væru uppi í alþjóðamálum. „Ég mun aldrei samþykkja að lýðskrumarar og öfgamenn eyðileggi hina evrópsku lífshætti okkar,“ sagði von der Leyen meðal annars.