Nýr kjarasamningur milli Félags skipstjórnarmanna og Samtaka atvinnulífsins, sem taka átti til skipstjóra og stýrimanna á millilandaskipum, var felldur. Niðurstöður rafrænnar atkvæðagreiðslu um samninginn voru kynntar nú í vikunni.

Samningurinn var um kaup og kjör alls 44 manna sem starfa á samtals sex skipum; fjórum hjá Eimskip og tveimur hjá Samskipum. Alls voru 44 félagsmenn með þátttökurétt og 38 þeirra tóku þátt, eða 86,36%. Samningurinn var felldur með 60,53% atkvæða.

„Nú er bara að halda áfram. Þessi kjaradeila fer nú til ríkissáttasemjara og væntanlega verður byrjað að skoða málið eftir verslunarmannahelgi,“ segir Árni Sverrisson formaður Félags skipstjórnarmanna. sbs@mbl.is