Tríó Guja Sandholt mezzósópran, Diet Tilanus fiðluleikari og Heleen Vegter píanóleikari koma fram á morgun.
Tríó Guja Sandholt mezzósópran, Diet Tilanus fiðluleikari og Heleen Vegter píanóleikari koma fram á morgun.

Tríó Ljósa kemur fram á tónleikaröðinni Sumartónleikum í Hallgrímskirkju í Saurbæ í Hvalfirði á morgun, sunnudag, kl. 16 og flytur „áhugaverða efnisskrá“, eins og segir í viðburðarkynningu. Tríóið skipa þær Guja Sandholt mezzósópran, Diet Tilanus á fiðlu og Heleen Vegter á píanó, en þær búa allar í Hollandi og hafa unnið saman að fjölbreyttum verkefnum.

Á efnisskrá eru verk eftir Clöru Schumann, Rebeccu Clarke, Josep Haydn og Robert Schumann, auk þess sem frumfluttur verður sönglagaflokkur eftir Hildigunni Rúnarsdóttur við ljóð Þórs Sandholt. Aðgöngumiðar eru seldir við innganginn. Þetta er 6. tónleikasumarið og haldnir eru átta tónleikar hvert sumar. „Lögð er áhersla á að sem flestar stíltegundir tónlistar séu í boði og hefur aðsókn á tónleikana í sumar verið afar góð,“ segir í kynningu frá skipuleggjendum.