— AFP/Jim Watson

Donald Trump forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins stendur hér á sviði ásamt Melaniu eiginkonu sinni, J.D. Vance varaforsetaefni og Usha, eiginkonu hans, á síðasta degi flokksþings Repúblikana, sem lauk í fyrrinótt.

Þinginu lauk með ræðu Trumps, þar sem hann þakkaði fyrir tilnefningu flokksins. Trump hafði lofað því að breyta ræðu sinni í kjölfar banatilræðisins, sem honum var sýnt fyrir viku, og nýtti hann upphaf ræðunnar í að lýsa upplifan sinni af tilræðinu.

Það tók Trump rúman einn og hálfan klukkutíma að flytja ræðu sína, og töldu ýmsir stjórnmálaskýrendur vestanhafs að hún hefði verið fulllöng og misst að einhverju leyti marks. Flokksþingið sjálft hefði hins vegar að þeirra mati heppnast afar vel fyrir Repúblikana, sem hefðu náð að stilla saman strengi sína fyrir kosningarnar í nóvember.