Fátt bendir til að Biden valdi embætti sínu nú þegar

Joe Biden Bandaríkjaforseti greindi í gær frá hinu óumflýjanlega, að hann hefði fallið frá forsetaframboði sínu í nóvember og að hann styddi Kamölu Harris, varaforseta sinn, til þess að vera frambjóðandi Demókrataflokksins í sinn stað.

Þessa ákvörðun tók forsetinn eftir að honum var gert ljóst að hann hefði glatað tiltrú og trausti helstu forystumanna flokks síns. Þeir draga andlegt atgervi hins 81 árs gamla forseta í efa og telja útilokað að hann geti sigrað Donald Trump í forsetakosningum hinn 5. nóvember í haust.

Þar kom þrennt helst til: Kappræðurnar fyrir tæpum mánuði, þar sem engum duldist lengur að Biden væri farið að förlast, banatilræðið við Trump um liðna helgi, sem sópaði að honum fylgi, en allt þetta kórónaði svo að margbólusettur Biden veiktist enn af kórónuveirunni í vikunni, og virtist algerlega þrotinn að kröftum.

...