Tilkynningum til barnaverndarþjónustu fjölgaði um 16,7% á fyrstu þremur mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Fjölgun varð á tilkynningum á landsvísu, en þó mest í Reykjavík, þar sem tilkynningum fjölgaði um 20,3%.

Eins og áður voru flestar tilkynningarnar á fyrsta ársfjórðungi vegna vanrækslu, eða 40,4% allra tilkynninga. Áhættuhegðun barna var næstalgengasta ástæða tilkynninga, eða 33,9%, sem er töluvert hærra hlutfall en í fyrra.

Tilkynningum vegna áhættuhegðunar barna fjölgaði mikið samanborið við sama tímabil árin á undan, eða um 31,8%. Mest fjölgaði tilkynningum vegna vímuefnaneyslu barna, eða 118,9% milli ára.

Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, útskýrir í samtali við Morgunblaðið að fjölgun hafi orðið á ofbeldistilfellum meðal barna bæði hérlendis og erlendis

...