„Í morgun sá ég stúlku“ er yfirskrift tónleika sem Tríó Ljósa heldur í Háteigskirkju í kvöld kl. 20. Tríóið skipa þær Guja Sandholt söngkona, Diet Tilanus á fiðlu og Heleen Vegter á píanó. Á tónleikunum flytja þær stuttan nýjan söngljóðaflokk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur við ljóð Þórs Sandholt (1964-1984). „Flokkurinn var pantaður af tríóinu í tilefni af því að í ár eru 60 ár frá fæðingu Þórs, bróður Guju, og fannst þeim stöllum passa sérstaklega vel að biðja Hildigunni um að tónsetja ljóðin þar sem einnig er um 60 ára afmælisár hennar að ræða. Á dagskránni verða flutt verk þar sem minningar og myndir frá æskunni, ástinni og náttúrunni eru í forgrunni og víða gætir sterkra þjóðlagaáhrifa,“ segir í viðburðarkynningu, en flutt verða verk eftir Jón Leifs, Rebeccu Clarke, Brahms, Clöru Schumann og Haydn. Miðar fást á tix.is.