40 ára Sandra ólst upp í Tröð í Skagafirði. „Mér finnst það algjör forréttindi að hafa fengið að alast upp við þetta frjálsræði úti í náttúrunni og geta enn farið í sveitina í sauðburð.“ Sandra fór í skóla á Sauðárkróki og lauk…

40 ára Sandra ólst upp í Tröð í Skagafirði. „Mér finnst það algjör forréttindi að hafa fengið að alast upp við þetta frjálsræði úti í náttúrunni og geta enn farið í sveitina í sauðburð.“

Sandra fór í skóla á Sauðárkróki og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Króknum.

Hún fór til Reykjavíkur í lyfjafræði í Háskóla Íslands og útskrifaðist úr meistaranámi árið 2009. Þá var hún búin að kynnast eiginmanni sínum og fóru þau saman til Stokkhólms þar sem Sandra fór í KTH í meistaranám í líftækni. „Ég kunni mjög vel við mig í Stokkhólmi og vorum við eitt ár eftir námið og var ég að vinna á rannsóknarstofu í borginni.“ En þegar eiginmaðurinn fékk góða vinnu á Íslandi ákváðu þau að flytja heim, enda von á erfingja.

...