Óperusöngvarinn Ólafur Kjartan Sigurðarson syngur hlutverk Kurwenals í óperunni Tristan og Ísold eftir Richard Wagner í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar sem frumsýnd verður á Bayreuth-hátíðinni í Þýskalandi í dag, fimmtudag, kl. 12 að íslenskum tíma. Um er að ræða opnunarsýningu óperuhátíðarinnar sem stendur til 27. ágúst og frumraun Þorleifs á hátíðinni.

Hægt er að sjá uppfærsluna í beinu streymi á slóðinni stage-plus.com/discover ef leitað er eftir titli óperunnar. Vikupassi á vefnum kostar innan við 1.400 íslenskar krónur. Titilhlutverkin syngja Andreas Schager og Camilla Nylund, en Semyon Bychkov heldur um tónsprotann. Vytautas Narbutas hannar leikmyndina.