Ótti við atkvæði ræður stundum för

Forsætisráðherra Ísraels flutti mjög öfluga ræðu í bandaríska þinginu í fyrradag, við mikil og verðskulduð fagnaðarlæti þingheims. Þarna sátu þingmenn úr báðum deildum og risu ótt og títt úr sætum sínum og gáfu ræðu gestsins ágætiseinkunn, og reyndar fjölda þeirra, með þeim hætti. Fjöldi baráttubræðra og systra úr hópi Palestínumanna eða stuðningsmanna þeirra var á hinn bóginn með mótmæli og hávaða í námunda við þingið.

Vakti það nokkra athygli að fæst þessa fólks sýndi andlit sitt, enda starfsemi þeirra ólögmæt, eins og mótmæli þeirra voru útfærð. Lög í Bandaríkjunum leyfa almennt að hafa mótmæli í frammi, en þó með því skilyrði að allt slíkt fari friðsamlega fram og án skemmdarverka. Tugir eða réttara sagt hundruð dæma eru af eyðileggingu „mótmælenda“ á þekktum styttum með því að útbía þær með málningardrullu og öðru ámóta og með því að sýna fánum Bandaríkjanna lítilsvirðingu

...