Joe Biden
Joe Biden

Joe Biden Bandaríkjaforseti lagði í gær fram tillögur sínar til umbóta á hæstarétti Bandaríkjanna, en þær fela m.a. í sér að dómarar við réttinn sitji lengst í 18 ár og að nýjar siðareglur taki gildi sem dómarar verði bundnir af.

Þá vill Biden einnig að stjórnarskrá Bandaríkjanna verði breytt til að tryggja að forsetinn njóti ekki friðhelgi frá sakamálum eins og rétturinn úrskurðaði nýlega í einu af þeim sakamálum sem snerta Donald Trump forsetaframbjóðanda repúblikana.

Nær engar líkur eru á því að tillögur Bidens nái fram að ganga, þar sem ólíklegt er talið að flokkarnir tveir á Bandaríkjaþingi myndu ná saman um þær. Stjórnmálaskýrendur vestanhafs segja hins vegar að þær gætu fengið fleiri demókrata til þess að kjósa í kosningunum í nóvember, en þeir eru margir hverjir óánægðir með núverandi skipan réttarins og þá dóma sem hann hefur fellt.