Talsverðar líkur eru á því að Spánverjinn Rafael Nadal hafi leikið sinn síðasta einliðaleik á ferlinum á Ólympíuleikunum í París í gær. Hann tapaði þá fyrir Novak Djokovic frá Serbíu, í uppgjöri tveggja sigursælustu tennismanna sögunnar, og er úr leik en á eftir að keppa í tvíliðaleik í París. Djokovic er hins vegar kominn í 16 manna úrslit. Nadal er 38 ára gamall og hefur glímt við meiðsli síðustu árin en hann var samtals í 209 vikur í efsta sæti á heimslistanum.