Á 11. tónleikum sumardjasstónleikaraðar Jómfrúarinnar við Lækjargötu í dag, laugardag, kemur fram hljómsveit söngvarans Þórs Breiðfjörð. Ingi Bjarni Skúlason leikur á píanó, Leifur Gunnarsson á kontrabassa og Erik Qvick á trommur. „Flutt verða lögin af hinni vinsælu plötu Bjarkar og tríós Guðmundar Ingólfssonar, Gling-gló, en einnig þekkt djasslög, meðal annars í anda Nat King Cole og Frank Sinatra. Hugsanlega slæðast einhver frumsamin verk með. Þór Breiðfjörð er einn fárra forfallinna „karlkrúnera“ á íslandi og hefur sungið og gefið út lög í þeim stíl í mörg ár, ekki síst um jólin,“ segir í viðburðarkynningu. Tónleikarnir fara fram utandyra á Jómfrúartorginu. Þeir hefjast kl. 15 og standa til kl. 17. Aðgangur er ókeypis.