Ingólfur Ómar sendi mér gamansaman póst um helgina:

Undan freistni oft ég læt

allt í himnalagi.

Alltaf finnst mér syndin sæt

þó samviskan mig nagi.

Gátan er sem endranær eftir Pál Jónasson í Hlíð:

Geymt í honum gullið var,

góður upp úr súru,

orðið merkir afleitt far,

engan hafa konurnar.

Guðrún Bjarnadóttir leysir gátuna:

Úr pungi mínum gull upp gróf

og gæðahrútspung kýs á þorra.

Fínt að hafa pungapróf,

og pung í klofi bræðra vorra.

Lausnarorðið er pungur, segir Úlfar

...