— Morgunblaðið/Eggert

Það er ekki seinna vænna að gera klárt fyrir Ljósanóttina suður í Reykjanesbæ, sem þar fer fram eftir fjórar vikur. Þeir Guðmundur og Friðrik standa hér aftur á Baldri KE 97, mála og gera klárt fyrir hátíðarhöldin, en báturinn er til skrauts og leiks.

Ljósanótt er haldin fyrstu helgi í september ár hvert og var fyrst til hennar efnt árið 2000, svo hún fagnar aldarfjórðungsafmæli í ár. Ekki er að efa að hún verður fjölsótt að venju.

Áhersla er lögð á viðamiklar uppákomur frá fimmtudegi til sunnudags þótt stundum teygist hátíðin út fyrir þann ramma. Hámarki nær hún á laugardagskvöldi með stórtónleikum á útisviði, lýsingu „Bergsins“ eða Hólmsbergs, sjávarhamranna norðan Keflavíkur, og glæsilegri flugeldasýningu.