Jóhann Berg var ekki með Burnley.
Jóhann Berg var ekki með Burnley.

Burnley vann sannfærandi sigur á Luton, 4:1, í fyrsta leik sínum í ensku B-deild karla í knattspyrnu í Luton í gærkvöldi. Liðin féllu bæði úr úrvalsdeildinni í fyrra og áttu arfaslök tímabil. Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson var ekki með Burnley-liðinu í gær. Josh Brownhill, Wilson Odobert, Dara O'Shea og Vitinho skoruðu mörk Burnley en Tahith Chong skoraði mark Luton. Burnley var langbesta lið B-deildarinnar á þarsíðustu leiktíð og virðist stefna á slíkan árangur aftur. Luton kom skemmtilega upp í úrvalsdeildina í fyrra en blaðran gæti verið sprungin þar á bæ. Burnley mætir Cardiff í næsta leik á heimavelli og síðan bíður Sunderland á útivelli. Eftir það gætum við fengið fyrsta Íslendingaslag deildarinnar þegar Burnley fær Blackburn í heimsókn en Arnór Sigurðsson spilar með Blackburn. Enn er óljóst hvort Jóhann Berg verður með liðinu í þeim leik.