Fumio Kishida
Fumio Kishida

Forsætisráðherra Japans, Fumio Kishida, tilkynnti í gær að hann muni segja af sér embætti í næsta mánuði. Frjálslyndi demókrataflokkurinn, sem stjórnað hefur landinu nær óslitið frá árinu 1955, mun þá velja sér nýjan leiðtoga, sem einnig mun taka við forsætisráðuneytinu.

Kishida hefur verið óvinsæll í embætti, og hafa skoðanakannanir sýnt að fylgi hans og frjálslyndra demókrata hefur dalað mjög á undanförnum mánuðum, þar sem bæði há verðbólga og nokkur hneykslismál hafa skekið stjórn hans. Kishida sagði í gær að það væri nauðsynlegt fyrir flokk sinn að sýna að hann gæti endurnýjað sig, og því myndi hann stíga til hliðar í leiðtogakjörinu.