— Morgunblaðið/sisi

Skattskráin, álagningarskrá vegna álagningar ársins 2024 á einstaklinga, verður lögð fram á mánudaginn í næstu viku. Um er að ræða álagningu vegna tekjuársins 2023.

Verður álagningarskráin almenningi til sýnis frá 19. ágúst til 2. september að báðum dögum meðtöldum. Kærufrestur vegna álagningarinnar rennur út 2. september.

Þessar upplýsingar koma fram á heimasíðu Skattsins.

Álagningarskráin mun liggja frammi á almennum starfsstöðvum Skattsins víða um land. Framteljendum á skattgrunnskrá hefur fjölgað ár frá ári. Á grunnskrá árið 2023 voru 332.069 einstaklingar, 14.502 fleiri en árið áður.

Svokölluð tekjublöð með upplýsingum um gjöld einstaklinga hafa verið gefin út áratugum saman. Tekjublaðið kom t.d. út í fyrra með upplýsingum um tekjur 4.000 Íslendinga.

...