— AFP/Robyn Beck

Landsfundur Demókrataflokksins í Bandaríkjunum hefst í dag í Chicago í Illinois-ríki og vonast flokksmenn til þess að fundurinn tryggi áframhaldandi meðvind með Kamölu Harris forsetaframbjóðanda. Joe Biden Bandaríkjaforseti tekur til máls í kvöld.

Búist er við að hátt í 50 þúsund manns muni mæta á landsfundinn og þar af um 4.000 kjörmenn.

Landsfundurinn mun standa yfir fram á fimmtudag og mun flokkurinn reyna að koma fram sem ein heild í kjölfar þess að Biden dró framboð sitt til baka fyrir rúmum mánuði.

Venjulega eru frambjóðendur formlega útnefndir af flokkum sínum á landsfundi en það er undantekning á því í tilfelli Harris. Kjörmenn demókrata útnefndu Kamölu Harris formlega í netheimum 6. ágúst.