Rún Ingvarsdóttir
Rún Ingvarsdóttir

Tenging Suðuræðar 2 inn á dreifikerfi hitaveitu á höfuðborgarsvæðinu gekk að mestu vel og var samkvæmt áætlun. Heitt vatn var komið á á langflestum þeim svæðum sem höfðu verið án þess um hádegisbilið í gær.

„Þetta hefur gengið vel og þrýstingur var kominn á á þeim tíma sem við vonuðumst eftir þannig að þessi aðgerð var bara algjörlega á áætlun,“ segir Rún Ingvarsdóttir samskiptastjóri Veitna um framkvæmdina.

Einhverjir lekar komu upp á afmörkuðum svæðum, í einstaka götum eða húsum, þegar vatninu var hleypt aftur á en Rún segir það hafa verið viðbúið.

Annars höfðu Veitum ekki borist neinar tilkynningar í gær um annars konar tjón vegna framkvæmdarinnar.