— AFP/Helder Santos

Miklir skógareldar loga nú á portúgölsku eyjunni Madeira og hafa nærri 4.300 hektarar skóglendis brunnið. Eldarnir nálgast Laurissilva-skóg en það er stærsti lárviðarskógur í heimi og er á heimsminjaskrá UNESCO.

Portúgölsk stjórnvöld sendu hátt í 80 slökkviliðsmenn frá meginlandinu í síðustu viku eftir að eldarnir kviknuðu og í gær voru 45 sendir þangað til viðbótar. Hvassviðri hefur glætt eldana og það truflaði einnig starfsemi á alþjóðaflugvellinum í höfuðborginni Funchal um tíma.

Um 200 manns þurftu að yfirgefa heimili sín tímabundið vegna hættu á reykeitrun. Engin hús hafa þó orðið eldunum að bráð og enginn hefur slasast þótt nokkrir slökkviliðsmenn hafi sýnt væg einkenni reykeitrunar. Fjöldi ferðamanna er á eyjunni.