Gljúfrasteinn Mathias Halvorsen á píanó og Benedikt Kristjánsson tenór.
Gljúfrasteinn Mathias Halvorsen á píanó og Benedikt Kristjánsson tenór.

Síðustu stofutónleikar sumarsins á Gljúfrasteini fara fram á morgun, sunnudaginn 25. ágúst, klukkan 16, en stofutónleikar hafa farið fram alla sunnudaga í sumar. Tónleikarnir á morgun bera yfirskriftina Ljóðaflokkur op. 35 en þar koma fram þeir Benedikt Kristjánsson tenór og Mathias Halvorsen píanóleikari.

Segir í tilkynningu að þeir hafi á síðustu árum flutt stærstu ljóðaflokka Schuberts; Malarastúlkuna fögru og Vetrarferðina, í Salnum í Kópavogi og hlotið góðar undirtektir. „Báðir starfa þeir bæði hérlendis og erlendis sem einleikarar á sínu sviði. Nú færa þeir sig yfir í Robert Schumann í fyrsta sinn, og flytja ljóðaflokk opus. 35 við ljóð Justinus Kerners.“ Miðasala fer fram í anddyri safnsins en aðgangseyrir á tónleikana er 3.500 krónur og eru allir velkomnir.