Tíunda ópera Giuseppes Verdis (1813-1901), Macbeth, var frumflutt í Pergóla-leikhúsinu í Flórens árið 1847 við ágætar undirtektir. Tæpum tveimur áratugum síðar endurskoðaði tónskáldið verkið fyrir sýningu í París, það er að segja 1865. Sum atriði óperunnar stóðust hreinsunareldinn á meðan önnur voru klædd í nýjan búning ellegar samin frá grunni; auk þess fékk nú ballett-tónlist að fljóta með, svo sem títt var með óperur ætlaðar Parísarbúum. Viðtökur voru aðrar en í Flórens. Franskir gagnrýnendur sökuðu Verdi meðal annars um að hafa misskilið Shakespeare. Þessu neitaði tónskáldið staðfastlega, taldi enda Shakespeare til sinna eftirlætisskálda og verk hans las Verdi reglulega.

Macbeth var fyrsta Shakespeare-ópera Verdis en textann samdi Francesco Maria Piave að mestu, þó með viðbótum frá Andrea Maffei. Fjörutíu ára bið varð

...