KR var stofnað 16. febrúar árið 1899 og fagnar 125 ára afmæli á þessu ári. Því er við hæfi að minnast Erlends Ólafs Péturssonar á þessum tímamótum.
Aðsópsmikill leiðtogi Erlendur Ólafur Pétursson gaf Knattspyrnufélagi Reykjavíkur nafn og mótaði starf þess um margra áratuga skeið.
Aðsópsmikill leiðtogi Erlendur Ólafur Pétursson gaf Knattspyrnufélagi Reykjavíkur nafn og mótaði starf þess um margra áratuga skeið.

Jóhannes Hraunfjörð Karlsson

Erlendur Ólafur Pétursson, EÓP eins og hann var gjarna nefndur, var einn merkasti íþróttaleiðtogi landsins um árabil. Hann var formaður og forystumaður KR, Knattspyrnufélags Reykjavíkur, áratugum saman, og vann hann jafnframt fyrir íþróttahreyfinguna alla. Hvatningarræður hans voru landskunnar og hann gerði KR að því stórveldi sem það er í dag. KR var stofnað árið 1899 og fagnar 125 ára afmæli á þessu ári. Það er því við hæfi að minnast EÓP á þessum merku tímamótum.

Erlendur Ólafur fæddist í Götuhúsum (á horni Vesturgötu og Bakkastígs) í Vesturbænum. Foreldrar hans voru Pétur Þórðarson, skipstjóri og hafnsögumaður í Reykjavík, og frú Vigdís Guðlaug Teitsdóttir húsfreyja. Ætlunin var að EÓP fetaði í fótspor föður síns. Sjósókn átti hins vegar ekki við hann og menntaði hann sig í verslunar- og skrifstofustörfum.

...