Halla Tómasdóttir
Halla Tómasdóttir

Halla Tómasdóttir forseti Íslands og eiginmaður hennar, Björn Skúlason, verða viðstödd setningu Paralympics-leikanna í París í kvöld, en fimm íslenskir íþróttamenn úr röðum fatlaðra keppa á leikunum. Fara þau utan í boði Íþróttasambands fatlaðra.

Síðdegis í dag býður Emmanuel Macron Frakklandsforseti forsetahjónunum ásamt öðrum gestum til móttöku í Elysée-höllinni. Um kvöldið verður svo opnunarhátíð leikanna á Concorde-torgi og sækja hana mörg þúsund íþróttamenn frá meira en 180 löndum auk margra þjóðhöfðingja og annarra ráðamanna.

Á morgun, fimmtudag, fylgjast forsetahjónin með leikunum og á föstudaginn heimsækja þau ólympíuþorpið og hitta að máli íslenska keppendur og þjálfara auk forystumanna íþróttahreyfingar fatlaðra, segir í tilkynningu frá forsetaembættinu.