Utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, tók í gær á móti Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafa Bidens Bandaríkjaforseta, í Peking. Vonuðust báðir til þess að viðræður þeirra gætu þokað samskiptum ríkjanna í rétta átt í samræmi við fund Bidens með Xi Jinping Kínaforseta í San Francisco á síðasta ári. Viðræðum Wangs og Sullivans lýkur í dag, en þeir munu m.a. ræða málefni Úkraínu og Taívan.

Fundurinn var haldinn á sama tíma og bæði Filippseyjar og Japan sökuðu Kínverja um að stunda ögranir gagnvart sér. Japönsk stjórnvöld lýstu í gær yfir þungum áhyggjum vegna framferðis Kínverja á Suður-Kínahafi, á sama tíma og þau sökuðu Kínverja um að hafa sent orrustuþotu inn fyrir lofthelgi Japans.