— AFP/Tobias Schwarz

Forsætisráðherra Bretlands, Keir Starmer (t.h.), hélt í gær til fundar við Olaf Scholz Þýskalandskanslara í Berlín. Var það fyrsta opinbera utanlandsferð Starmers frá því að hann tók við embætti forsætisráðherra.

Á meðal þess sem leiðtogarnir ræddu var nýr sáttmáli sem Bretland og Þýskaland ætla að gera með sér, en stefnt er að því að hann verði undirritaður snemma á næsta ári.

Sáttmálinn tekur til ýmissa þátta í samskiptum ríkjanna tveggja, þar á meðal varnarmála og milliríkjaviðskipta, og sagði Starmer að hann myndi marka tímamót í samskiptum Breta og Þjóðverja.

Þá verður sáttmálinn einnig þáttur í nánari samskiptum Breta við Evrópusambandið að sögn leiðtoganna tveggja.