— AFP/Yuichi Yamasaki

Fellibylurinn Shanshan olli miklum usla í gærmorgun þegar hann gekk á land á Kyushu-eyju í suðurhluta Japans. Fylgdu Shanshan mikil flóð, auk þess sem vindhraði náði sums staðar sjötíu metrum á sekúndu, eða sem nemur um 252 km/klst.

Er þetta einn kröftugasti fellibylur sem herjað hefur á Japan frá árinu 1960, en nokkuð dró úr afli hans eftir því sem leið á gærdaginn. Mældist vindhraði þó enn um 45 metrar á sekúndu þegar leið að kvöldi í Japan.

Að minnsta kosti eins var saknað í gær vegna fellibylsins, og þá höfðu áttatíu manns hið minnsta slasast af völdum Shanshans, þar af tveir alvarlega. Vöruðu stjórnvöld í Japan við því að flóðin sem fylgdu Shanshan gætu valdið aurskriðum og annarri slysahættu.