Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að elta vinstriflokkana og gera eyðslumál þeirra að sínum.
Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon

Kjartan Magnússon

Flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag er ætlað að leggja drög að áherslum á komandi þingvetri og fram að kosningum. Fundurinn er haldinn í skugga þess að flokkurinn mælist með minna fylgi í skoðanakönnunum en áður hefur þekkst. Því er brýnt að flokksráðsfulltrúar stingi ekki höfðinu í sandinn, heldur líti á fundinn sem kærkomið tækifæri til að horfast í augu við stöðu flokksins. Ræða þarf leiðir til úrbóta af hreinskilni og hispursleysi.

Ein helsta ástæða þess að Sjálfstæðisflokknum auðnaðist að verða stærsta stjórnmálahreyfing þjóðarinnar er sú grundvallarstefna að fara eigi vel með skattfé og að álögum á almenning skuli haldið í lágmarki. Flokkurinn ávann sér þannig trúverðugleika sem brjóstvörn skattgreiðenda gegn vinstriflokkum, sem börðust fyrir útþenslu hins opinbera og stóraukinni skattheimtu.

...