Áhugasömum gefst tækifæri til að kynnast staðarlistamanni Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Ólafi Kjartani Sigurðarsyni, á morgun, þriðjudaginn 3. september. Þá tekur Elísabet Indra Ragnarsdóttir hann tali í Norðurljósum Hörpu en Ólafur Kjartan mun einnig syngja valdar óperuaríur með píanóundirleik. Ólafur Kjartan barítón stendur á hátindi ferils síns og hefur síðustu ár sungið burðarhlutverk í mörgum af virtustu óperuhúsum heims, þar á meðal á hinni virtu Bayreuth-hátíð í Þýskalandi. Salurinn er opnaður kl. 17.15 en dagskráin hefst kl. 18. Aðgangur er ókeypis.