— Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson

Fulltrúar ríkisins, Reykjavíkurborgar, KSÍ og FRÍ undirrituðu í gær sameiginlega viljayfirlýsingu um framtíðaruppbyggingu þjóðarleikvanga fyrir knattspyrnu og frjálsíþróttir í Laugardal. Um er að ræða fyrsta skref að uppbyggingu tveggja aðskilinna þjóðarleikvanga utanhúss í Laugardal.

Laugardalsvöllur verður byggður upp sem knattspyrnuvöllur eingöngu, þar sem mögulegt verður að leika stærstan hluta ársins. Fyrsti áfangi í uppbyggingu leikvangsins verður að skipta út núverandi grasi á vellinum fyrir blandað gras og setja hitunarkerfi undir völlinn.

Þá fær FRÍ sinn eigin þjóðarleikvang sem rís á nýjum stað í Laugardalnum. Mun hann uppfylla kröfur til alþjóðlegra viðburða.