Mörg dæmi eru um að áætlanagerð fyrirtækja sé ábótavant og ábyrgðin lítil sem engin á því sem kynnt er. Auðvitað koma upp óvænt atriði í rekstri fyrirtækja sem þarf að bregðast við og þá endurspeglast það í breyttum áætlunum. Verstar eru ríkisstofnanir í þessu samhengi. Þar virðist ekki skipta nokkru einasta máli hvort áætlun standist. Tenging ábyrgðaraðila er nánast engin við raunverulega greiðendur kostnaðarins, skattgreiðendur.

Auðveldast er að nefna samgöngusáttmálann sem nú er kynntur af miklum móð. Þar er allt kapp lagt á að endurskoða áætlanir og auðvitað einungis til að auka kostnaðinn án þess að hafa nokkurn skilning á því fyrir hvern er raunverulega unnið eða hver greiðir þetta allt. Ef fjölskyldur landsins vilja síðan ekki nota samgöngurnar sem þeir kjörnu leggja til verða þeir bara píndir til þess með auknum kostnaði. Einkabíll heimilanna í því samhengi er þar uppspretta nýrra tekna.

...