Theis Ørntoft
Theis Ørntoft

Danski rithöfundurinn Theis Ørntoft hlýtur Bókmenntaverðlaun Pers Olovs Enquist í ár og veitir þeim viðtöku í Gautaborg 28. september. Hlýtur hann 770 þúsund krónur að launum. Verðlaunin eru veitt ungum höfundum sem eru að skapa sér nafn í Evrópu og hafa verið veitt árlega síðan 2004. Stofnað var til verðlaunanna í tengslum við 70 ára afmæli Enquists.

Ørntoft hlaut fyrr á árinu Evrópsku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Jordisk (2023), sem einnig er tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norður­landaráðs sem afhent verða í október. Tveir ­Íslendingar hafa hlotið Enquist-verðlaunin, Fríða Ísberg 2022 og Jón Kalman Stefánsson 2011.