Ásvellir Rut Jónsdóttir fer fram hjá Selfyssingnum Perlu Ruth Albertsdóttur í fyrsta leik sínum með Haukum á Íslandsmótinu.
Ásvellir Rut Jónsdóttir fer fram hjá Selfyssingnum Perlu Ruth Albertsdóttur í fyrsta leik sínum með Haukum á Íslandsmótinu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg

Nýliðar Selfoss í úrvalsdeild kvenna í handbolta, sem nutu einstakrar sigurgöngu í 1. deildinni síðasta vetur, voru skotnir niður á jörðina í fyrsta leik sínum á tímabilinu gegn Haukum á Ásvöllum í gærkvöld.

Haukar komust í 10:1 og voru með yfirburðastöðu í leiknum eftir það. Staðan var 17:7 í hálfleik, 23:7 þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, en lokatölur urðu 32:20.

Landsliðsmarkvörðurinn Sara Sif Helgadóttir kemur öflug til leiks með Haukum en hún varði 13 skot í fyrri hálfleik og 19 alls. Hin þrautreynda Rut Jónsdóttir er einnig komin til liðs við Haukana, sem enduðu í öðru sæti deildarinnar í fyrra og hún skoraði tvö mörk.

Elín Klara Þorkelsdóttir var markahæst hjá Haukum með sjö mörk, Rakel Oddný Guðmundsdóttir skoraði sex og Sara Odden fimm. Perla Ruth Albertsdóttir skoraði átta mörk fyrir Selfyssinga og Hulda Dís Þrastardóttir fjögur.