Ofsóknir og ofbeldi hafa ekkert með málfrelsi að gera

Mótmæli fóru illilega úr böndum í bandarískum háskólum síðastliðið vor. Nú þegar nemendur koma til baka úr sumarfríi vona margir að þessi bylgja hafi gengið niður en aðrir óttast að mótmælin taki sig upp að nýju og sums staðar hefur sú orðið raunin.

Mikil skemmdarverk voru unnin víða í háskólum í vor og nokkuð hefur borið á því við upphaf nýs skólaárs. Alvarlegustu brotin eru þó þau sem beinst hafa gegn Gyðingum, en þeir hafa víða mátt þola yfirgang og jafnvel ofsóknir sem flestir töldu eflaust að gæti aldrei aftur gerst eftir skelfilega reynslu af ofbeldi og ofsóknum sem hófust í Þýskalandi fyrir tæpri öld.

En sumir neita að læra af sögunni og telja málstaðinn leyfa hvað sem er. Þetta hefur orðið til þess að Gyðingar á stúdentagörðum í Bandaríkjunum hafa jafnvel þurft að hrökklast þaðan og aðrir hafa átt erfitt með að sækja tíma vegna ofsókna. Þetta er óviðunandi og í raun óhugsandi ástand sem sumir skólar hafa tekið vel á en aðrir síður.

...