Samfélagsleg áhrif af fyrirhugaðri Kvíslatunguvirkun í Strandabyggð eru metin talsvert jákvæð til lengri tíma, að því er kemur fram í umhverfismatsskýrslu um virkjunina, sem Orkubú Vestfjarða hefur lagt fram. Áætlað er að afl virkjunarinnar verði allt að 9,9 MW.

Verði Kvíslatunguvirkjun að veruleika verður hægt að sjá íbúum fyrir nægu rafmagni þótt Hólmavíkurlína rofni, en sú lína sér Strandamönnum fyrir megninu af orkunni sem notuð er. Ekki þarf þá að nota varaafl framleitt með dísilrafstöðvum.

Áformuð Kvíslatunguvirkjun verður í Selárdal sem liggur norður úr botni Steingrímsfjarðar. Inntakslón og miðlunarlón verða á hálendinu norðan við Þjóðbrókargil. Vatni verður veitt um niðurgrafna þrýstipípu til stöðvarhúss sem verður nálægt Selá í Selárdal. Orkan verður flutt um jarðstreng að tengivirki við Hólmavík, um 18 kílómetra leið.

...