Ekkert forsetaefni eða forseti hefur setið undir öðrum eins ákærum og ásökunum og Donald Trump hefur þolað í aðdraganda kosninganna sem nú fara fram. Þeir, sem helst héldu um spottana á brúðuheimili Hvíta hússins, lögðu svo sannarlega sitt af mörkum. Engu var líkara en þeir tryðu því, að ef dómsmálaráðuneytið, svo vel mannað sem það er, ákvæði eitthvað, þá væru því allir vegir færir og hreint aukaaðriði hvort aðgerð væri lögleg eða ekki.
Á leið í Landmannalaugar
Á leið í Landmannalaugar — Morgunblaðið/Árni Sæberg

Þá er þessi lokalota hafin vestra, og verður ekki aftur snúið, enda aðeins örfáar vikur til kjördags, þann 5. nóvember nk. Og það er næstum sama hvert litið er, þegar horft er á þetta pólitíska brask, sem er óneitanlega og iðulega „ljót sjón lítil“, en á móti kemur, að sumt verður stundum allt að því skemmtilega skrítið, þótt það hafi ekki endilega staðið til.

Óvæntur fundur, en þó ekki með öllu óvæntur

Í vikunni hélt dómsmálaráðherra Bandaríkjanna „óvæntan“ og fjölmennan blaðamannafund og var með forstjóra FBI, hinnar frægu og fjölmennu alríkislögreglu, við hlið sér, auk nokkurra pótintáta, sem lögðu fátt til mála, en voru sjálfsagt hafðir til skrauts og til að ýta undir þá tilfinningu að málið væri alvarlegt, sem blasti ekki endilega við.

Mörgum

...