— AFP/Simon Maina

Embættismenn í Keníu staðfestu í gær að minnst sautján drengir hefðu farist í eldi sem braust út á heimavist við Hillside Endarasha-skólann í Nyeri-sýslu um miðnætti í fyrrinótt. Rúmlega 150 drengir voru á heimavistinni þegar eldurinn braust út og var sjötíu þeirra enn saknað í gær.

Forseti Keníu, William Ruto, lýsti í gær yfir þriggja daga þjóðarsorg frá og með næsta mánudegi eftir þennan ólýsanlega harmleik, en drengirnir sem létust voru á aldrinum 9 til 13 ára.

Foreldrar og aðstandendur komu til þess að leita að ástvinum sínum, en aðstæðum var lýst sem hrikalegum. Að sögn sjónarvotta brustu margir foreldranna í grát eftir að þeir sáu aðstæðurnar inni á heimavistinni.