Samkvæmt gögnum kröfuþjónustunnar Motus hefur töluverð aukning orðið á alvarlegum vanskilum á kröfum öðrum en fasteignalánum, t.d. á minni greiðsluseðlum, áskriftum og neyslulánum, sem gæti haft forspárgildi um frekari greiðsluvanda fram undan.

Samanborið við sömu mánuði í fyrra jukust vanskil það sem af er ári um 6,6% hjá einstaklingum og 1% hjá fyrirtækjum og alvarleg vanskil jukust um 20,1% hjá einstaklingum og 6,5% hjá fyrirtækjum.

Alvarleg vanskil eru skilgreind sem kröfur sem eru ógreiddar 45 dögum eftir eindaga og næsta skref í innheimtu því oftast lögfræðiinnheimta.

Aukningin þykir stangast á við yfirlýsingar Seðlabankans við síðustu stýrivaxtaákvörðun, að lítið beri á greiðsluvanda og óþarft að hafa áhyggjur af stöðu heimilanna þó að vaxtastig haldist hátt.

...