Myndlist Veðurfar og náttúra veita Hrafnhildi Ingu innblástur.
Myndlist Veðurfar og náttúra veita Hrafnhildi Ingu innblástur.

Sýning á verkum Hrafnhildar Ingu Sigurðardóttur hefur verið opnuð í Vínarborg og stendur hún út septembermánuð. Gallerí Fold stendur að sýningunni í samstarfi við art.passage.spittelberg, sem er gallerí í Vín, til húsa við Gutenberggasse 15, Spittelberg passage.

Myndlistarkonan Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir ólst upp í sveitum Suðurlands þar sem opið hafið mætir ströndinni, að því er segir í tilkynningu. Þar er hún sögð hafa kynnst kröftum náttúrunnar, sem eru hennar helsti innblástur.

„Veðrið er sífellt á hreyfingu, það örvar hugann og veitir sköpunarkraftinum innblástur. Maður fær aldrei nóg af þessu stórbrotna meistaraverki náttúrunnar, möguleikar listsköpunar eru endalausir,“ er haft eftir Hrafnhildi Ingu í tilkynningunni.

Verk Hrafnhildar Ingu eru sögð kalla fram hið mikla afl náttúrunnar á lifandi hátt. Þau fangi „kyrrðina í miðjum storminum“.