„Við þurfum að ráðast að peningunum,“ segir Michael Lund, öryggisstjóri hjá Nordic Content Protection, sem eru félagasamtök sem starfa fyrir sjónvarpsiðnaðinn á Norðurlöndunum.

Ný könnun sýnir að ríflega 30% landsmanna hlaða niður eða streyma sjónvarpsefni með ólöglegum hætti. Hlutfall notenda er hæst meðal ungs fólks, um 59% í aldurshópnum 15-29 ára. Þetta er meðal þess sem kom fram á ráðstefnu um ólöglega dreifingu sjónvarpsefnis sem Sýn hélt í síðustu viku.

Herdís Dröfn Fjeldsted forstjóri Sýnar lagði á það áherslu í máli sínu að þjófnaður á sjónvarpsefni væri samfélagslegt vandamál. Hún sagði að mikilvægt væri að fræða neytendur betur um hvað fælist í því að stela sjónvarpsefni og að sækja brotamenn til saka svo eftir sé tekið. » 24