— Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörnsson

Óveðrið mikla sem einkum gekk yfir vestanvert landið 5. september sl. hristi svo mjög Turnhúsið á Byggðasafni Vestfjarða að burðarþolsstoðir fyrir efri hæð hússins löskuðust. Er nú óheimilt að ganga um efri hæðina.

Turnhúsið var reist árið 1784 sem vörugeymsluhús og er það stokkbyggt einlyft timburhús með risþaki. Húsið var friðlýst 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði.

Þegar veðurofsinn stóð sem hæst mældist vindur 46 m/s á Ísafirði og var ölduhæð á Pollinum yfir þrír metrar. Maður sem Morgunblaðið ræddi við sagðist aldrei hafa séð viðlíka áður. Til samanburðar má nefna að fárviðri er þegar vindur nær 32 m/s, eða 12 gömlum vindstigum. Í öllum látunum rak einnig tvær skútur á land.