Þorgerður er lögfræðingur á eftirlaunum.
Þorgerður er lögfræðingur á eftirlaunum.

Ég er núna að lesa Upp á Sigurhæðir, ævisögu Matthíasar Jochumssonar eftir Þórunni Valdimarsdóttur. Ég hef lesið hana oftar en einu sinni því Matthías er svo skemmtilegur og marglaga maður. Mér finnst hann vera einkavinur minn. Bókin er svo vel skrifuð og fróðleg og ég er mjög þakklát henni Þórunni að hafa lagst í þetta mikla verk. Ég les gjarnan bækur oftar en einu sinni.

Ég er í bókaklúbbi með þremur frænkum og ein er sérfræðingur í bókmenntum miðalda. Við erum að lesa Íslendingasögurnar. Núna erum við að lesa Laxdælu sem er bæði merkileg og skemmtileg og verður enn betri þegar við frænkurnar ræðum hana. Ég hafði ekki áhuga á Íslendingasögunum fyrr en eftir sjötugt og þá opnaðist alveg nýr heimur. Við erum nýbúnar með Njálu og það tók nú eiginlega ár því hún er svo flókin og dramatísk. Ég gæti trúað að maður gæti lesið hana alla ævi. Næst ætlum við að lesa Egilssögu.

...