Lið Bandaríkjanna sigraði í Solheim-bikarnum í golfi kvenna sem fór fram í Gainesville í Virginíuríki í Bandaríkjunum um liðna helgi. Lið Bandaríkjanna vann lið Evrópu 15½:12½. Lilia Vu, sem er númer tvö á heimslistanum, tryggði Bandaríkjunum sigurinn á 18. holu þegar hún vann Svisslendinginn Albane Valenzuela með hálfu stigi á lokahringnum. Er þetta í fyrsta sinn í sjö ár sem lið Bandaríkjanna hrósar sigri í Solheim-bikarnum. Komu Bandaríkin um leið í veg fyrir að lið Evrópu ynni fjórða Solheim-bikar sinn í röð, sem hefði verið met.

Bakvörðurinn Atli Barkarson er í úrvalsliði vikunnar í belgísku B-deildinni í knattspyrnu en þar hefur hann farið vel af stað með nýju liði, Zulte-Waregem. Atli skoraði sitt fyrsta mark í þriðja leiknum fyrir félagið um helgina þegar það sigraði Eupen, 3:1.

...