Tito Jackson
Tito Jackson

Tito Jackson, einn af stofnendum söngsveitarinnar Jackson 5, er látinn, sjötugur að aldri. Tito skipaði söngsveitina á sínum tíma með bræðrum sínum Michael, Jermaine, Jackie og Marlon og varð Michael þeirra þekktastur, eins og alkunna er. Banamein Titos er talið hafa verið hjartaáfall. Tito kom fyrir fáeinum dögum fram með bræðrum sínum Marlon og Jackie í New-England og einnig í Los Angeles.

Tito kom fram á tónleikum víða á síðastliðnum 20 árum sem blúsgítarleikari og þá ýmist í eigin nafni eða með B.B. King Blues Band. Tito var árið 1997 heiðraður, ásamt öðrum í Jackson 5, með því að vera tekinn inn í Frægðarhöll rokksins, Rock and Roll Hall of Fame. Michael lést árið 2009 og nú þegar Tito er allur eru því tveir úr Jackson 5 látnir af þeim fimm sem skipuðu sveitina.