— AFP/Þýski sjóherinn

Tvö þýsk herskip eru nú komin til hafnar á Filippseyjum og er þetta í fyrsta skipti sem Þjóðverjar senda þangað skip í yfir 20 ár. Herskipin eru sögð hafa siglt um Taívansund og vöktu því athygli Kínverja.

Er um að ræða freigátuna FGS Baden-Württemberg (F222) og birgðaskipið FGS Frankfurt am Main. Gert er ráð fyrir að skipin haldi aftur úr höfn á morgun, fimmtudag.

Sendiherra Þýskalands á Filippseyjum segir komu herskipanna þangað sýna hve mikilvægt Indó-Kyrrahafssvæðið er orðið og vilja Þjóðverja til að taka beinan þátt í því sem þar á sér stað.

Kínverjar hafa ekki tjáð sig með beinum hætti opinberlega um komu skipanna. Talsmaður utanríkisráðuneytisins segir þó Taívansund áhrifasvæði Kína og eru þeir því vafalaust ósáttir við komuna.