Skýlið hindrar eðlilega umferð um Geirsgötu

Framkvæmdirnar við Geirsgötu í Reykjavík eru nú deilumál tveggja sveitarfélaga.
Framkvæmdirnar við Geirsgötu í Reykjavík eru nú deilumál tveggja sveitarfélaga. Morgunblaðið/Árni Sæberg

„Ég sendi borgarstjóra bréfið og ræddi við hann í síma. Hann tók jákvætt í erindi mitt og sagðist myndu láta sitt fólk fara yfir það,“ segir Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, í samtali við Morgunblaðið og vísar í máli sínu til bréfs, dagsett 7. maí, sem sent var Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.

Í bréfinu mótmælir Ásgerður fyrir hönd Seltjarnarnesbæjar framkvæmdum Reykjavíkurborgar á Geirsgötu í miðbænum. En líkt og greint hefur verið frá hér í Morgunblaðinu er þar verið að setja upp nýja stoppistöð Strætó og verður hún án útskots.

Þetta veldur því að strætisvagnar munu þurfa að stoppa á miðri akbraut til að hleypa farþegum sínum inn og út úr vagninum með fyrirséðum töfum á umferð. Ásgerður segir framkvæmdir þessar ekki í samræmi við samkomulag Reykjavíkurborgar og Seltjarnarness um skipulag svæðisins, sem undirritað var 12. nóvember 2013, þar sem þær þrengi að umferð að Seltjarnarnesi.