Colbert á heima í ruslahrúgunni

Slökkt í glóðunum eftir að mótmælendur kveiktu í einni af …
Slökkt í glóðunum eftir að mótmælendur kveiktu í einni af ruslahrúgunum í París. Í Frakklandi hefur báknið blásið út, atvinnulífið er í spennitreyju og vandséð hvernig halda má áfram á sömu braut. AFP

Í þessari viku verður liðið ár síðan við Youssef fluttumst til Parísar og gott ef ég er ekki farinn að mildast ögn í afstöðu minni gagnvart Frökkunum. Að minnsta kosti finnst mér ég skilja betur hvers vegna hlutirnir eru eins og þeir eru, og smám saman hefur mér tekist að læra inn á franska siði, venjur og sérvisku.

Stundum fyllist ég þakklæti fyrir að búa í frönsku höfuðborginni; eins og þegar ég næ að skjótast út úr húsi til að þræða búðirnar, söfnin og sælkeraverslanirnar, eða þegar ég nenni að skokka út að Eiffelturninum. Öðrum stundum þyrmir yfir mig, s.s. þegar ég þarf að eiga við franska stjórnsýslu eða klofa yfir ruslapokastaflana sem hafa hrannast upp um alla borg undanfarnar vikur vegna verkfalls sorphirðumanna.